International Programs

Samningur Um Almannatryggingar Milli Bandarikja Nordur-ameriku Og Islands

Samkomulag og stjórnsýslusamningur, bæði undirritaður í Reykjavík, 27. september 2016.
  Samþykkt 1. mars 2019.​

English Text

Innihald

Samningur
I. HLUTI - Almenn ákvæði
II. HLUTI - Ákvæði varðandi  gildandi lög
III. HLUTI - Ákvæði um bætur
IV. HLUTI - Ýmis ákvæði
Stjórnsýslufyrirkomulag

SAMNINGUR UM ALMANNATRYGGINGAR
MILLI
BANDARÍKJA NORÐUR-AMERÍKU
OG
ÍSLANDS

 

 

 

 

Bandaríki Norður-Ameríku og

Ísland (sem nefnast hér á eftir „samningsaðilar“),

sem hafa hug á að binda í reglur samband landanna tveggja á sviði almannatrygginga, hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

 

HLUTI
Almenn ákvæði

1. gr.
Skilgreiningar

  1. Í samningi þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

    1. „ríkisborgari“ merkir:

      að því er varðar Bandaríki Norður-Ameríku, bandarískur ríkisborgari eins og skilgreint er í 101. þætti bandarísku innflytjendalöggjafarinnar, með síðari breytingum, og

      að því er varðar Ísland, íslenskur ríkisborgari eins og skilgreint er í lögunum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952,

    2. „lög“ merkir lög og reglugerðir sem tilgreind eru í 2. gr. samnings þessa,

    3. „lögbært stjórnvald“ merkir,

      að því er varðar Bandaríki Norður-Ameríku, the Commissioner of Social Security (forstjóri almannatrygginga) og

      að því er varðar Ísland, velferðarráðuneytið,

    4. „stofnun“ merkir,

      að því er varðar Bandaríki Norður-Ameríku, the Social Security Administration, og

      að því er varðar Ísland:
      vegna lífeyris almannatrygginga, Tryggingastofnun ríkisins, og

      vegna skyldubundna lífeyristryggingakerfisins, viðeigandi lífeyrissjóður,

    5. „tryggingatímabil merkir“,

      að því er varðar Bandaríki Norður-Ameríku, greiðslutímabil framlaga eða tímabil tekna af atvinnu eða sjálfstæðri atvinnustarfsemi, eins og það er skilgreint eða viðurkennt sem tryggingatímabil í lögum sem slíku tímabili hefur verið lokið samkvæmt, eða samsvarandi tímabil að því marki sem það er viðurkennt í slíkum lögum sem jafngilt tryggingartímabil, og

      að því er varðar Ísland, búseta, samkvæmt skilgreiningu í II. kafla íslenskra laga um almannatryggingar, sem fellur saman við

      (i) tímabil vinnu eða sjálfstæðrar atvinnustarfsemi sem framlög til almannatrygginga eða í lífeyrissjóð voru greidd fyrir að því er varðar lögin sem tilgreind eru í b-lið 1. mgr. 2. gr. samnings þessa,

      (ii) tímabil fyrir gildistöku laganna sem tilgreind eru í e-lið (i) þar sem einstaklingur sýnir fram á að hann eða hún hafi verið í vinnu samkvæmt íslenskum lögum, og

      (iii) tímabil þar sem einstaklingur sýnir fram á að hann eða hún hafi verið sjálfstætt starfandi samkvæmt íslenskum lögum,

    6. „bætur“ merkir allar bætur sem kveðið er á um í þeim lögum sem tilgreind eru í 2. gr. þessa samnings, og

    7. „persónuupplýsingar“ merkir allar upplýsingar sem varða tiltekinn (auðkenndan eða persónugreinanlegan) einstakling, sem og allar upplýsingar sem má nota til að aðgreina eða rekja auðkenni einstaklings. Þetta felur í sér, en takmarkast ekki við, eftirfarandi: Öll einstaklingsauðkenni; ríkisfang, þjóðerni, ríkisfangsleysi eða stöðu flóttamanns; bætur, hæfi eða aðrar upplýsingar um kröfur; samskiptaupplýsingar; læknisfræðilegar upplýsingar eða upplýsingar frá ófaglærðum sem notaðar eru í læknisfræðilegum ákvörðunum; upplýsingar um hjúskaparstöðu, fjölskyldumál eða persónuleg tengsl; og upplýsingar viðvíkjandi atvinnu, fjárhagslegri eða efnahagslegri stöðu.

  2. Öll hugtök sem eru ekki skilgreind í grein þessari skulu hafa merkinguna sem þeim er gefin í gildandi lögum.

2. gr.
Efnislegt gildissvið

  1. Í samningi þessum, eru gildandi lög eftirfarandi:

    1. að því er varðar Bandaríki Norður-Ameríku, lög sem varða alríkistryggingar vegna elli, til eftirlifenda og vegna örorku:

      (i) II. bálkur bandarískra laga um almannatryggingar og reglugerðir viðvíkjandi honum, nema 226. þáttur, 226. þáttur A og 228. þáttur í þeim bálki og reglugerðir viðvíkjandi þeim þáttum,

      (ii) 2. og 21. kafli í lögum Bandaríkjanna um tekjuskatt frá 1986 og reglugerðir viðvíkjandi þeim köflum,

    2. að því er varðar Ísland, lög um elli- og örorkulífeyristryggingakerfi almannatrygginga og skyldubundna lífeyristryggingakerfið (lífeyrissjóðir):

      (i) III. kafli í íslenskum lögum um almannatryggingar og reglugerðir viðvíkjandi honum, nema 19. gr., 3. og 4. mgr. 20. gr. og 2. málsl. 4. mgr. 18. gr.,

      (ii) lögin um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og reglugerðir viðvíkjandi þeim, nema 2. og 3. mgr. 15. gr,  og 4. mgr. 19. gr.,  og

      (iii) íslensku lögin um tryggingagjald.

  2. Nema kveðið sé á um annað í samningi þessum, skulu lögin sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar ekki taka til sáttmála eða annarra alþjóðasamninga eða yfirþjóðlegrar löggjafar um almannatryggingar milli eins samningsríkis og þriðja ríkis, eða laga eða reglugerða vegna sérstakrar framkvæmdar þeirra.

  3. Að undanskildu því sem kveðið er á um í eftirfarandi málslið, skal samningur þessi einnig gilda um löggjöf sem breytir eða bætir  við þau lög sem tilgreind eru í 1. mgr. þessarar greinar. Samningur þessi skal gilda um framtíðarlöggjöf samningsríkis sem leiðir af sér nýja flokka bótaþega eða nýjar bætur samkvæmt lögum þess samningsríkis nema lögbært stjórnvald samningsríkisins tilkynni lögbæru stjórnvaldi hins samningsríkisins skriflega innan þriggja (3) mánaða frá dagsetningu opinberrar birtingar nýrrar löggjafar, að engin slík útvíkkun á samningnum sé fyrirhuguð.

3. gr.
Tryggðir einstaklingar

Samningur þessi gildir um:

  1. einstaklinga sem falla eða hafa fallið undir lög annars eða beggja samningsríkjanna og

  2. aðra einstaklinga að því er varðar réttindi sem leiða af einstaklingunum sem lýst er í a-lið þessarar greinar.

4. gr.
Jafnræði við málsmeðferð

    Nema kveðið sé á um annað í samningi þessum, skal einstaklingur sem tilgreindur er í 3. gr. þessa samnings og býr á yfirráðasvæði samningsríkis fá sömu málsmeðferð og ríkisborgarar í því samningsríki þegar það samningsríki framfylgir lögum varðandi réttindi eða greiðslu á bótum.

5. gr.
Greiðslur bóta úr landi

Nema kveðið sé á um annað í samningi þessum, skal ekkert ákvæði laga samningsríkis sem takmarkar rétt á bótum eða greiðslu bóta eingöngu vegna þess að einstaklingur er búsettur utan yfirráðasvæðis þess samningsríkis eða er fjarverandi frá því, gilda um einstakling sem er búsettur á yfirráðasvæði hins samningsríkisins.

II. HLUTI
Ákvæði varðandi gildandi lög

6. gr.
Ákvæði um gildissvið

  1. Nema kveðið sé á um annað í þessari grein, skal einstaklingur, sem starfar  innan yfirráðasvæðis annars samningsríkisins, að því er varðar það starf, einungis falla undir lög þess samningsríkis.

    1. Þegar einstaklingur, sem  starfar að jafnaði  á yfirráðasvæði Bandaríkjanna og hjá vinnuveitanda á því yfirráðasvæði, er sendur tímabundið af þeim vinnuveitanda til yfirráðasvæðis Íslands, skal viðkomandi einstaklingur einungis falla undir löggjöf Bandaríkjanna, eins og einstaklingurinn væri starfandi á yfirráðasvæði Bandaríkjanna, að því tilskildu að ekki sé gert ráð fyrir að starfstímabilið á íslensku yfirráðasvæði verði lengra en fimm (5) ár. Við beitingu þessarar málsgreinar þegar um er að ræða starfsmann sem vinnuveitandi á yfirráðasvæði Bandaríkjanna sendir frá því yfirráðasvæði til íslensks yfirráðasvæðis, skal sá atvinnurekandi og eignatengt fyrirtæki atvinnurekandans (eins og það er skilgreint samkvæmt bandarískum lögum) vera talinn einn og hinn sami, að því tilskildu að starfið  hefði án samnings þessa fallið undir bandarísk lög.

    2. Sé einstaklingur, sem búsettur er á yfirráðasvæði Íslands og ráðinn er til starfa af vinnuveitanda með skráð aðsetur skrifstofu eða vinnustöð á því yfirráðasvæði, sendur tímabundið frá því yfirráðasvæði á yfirráðasvæði Bandaríkjanna, skal sá einstaklingur einvörðungu falla undir íslenska löggjöf eins og hann væri ráðinn til starfa og búsettur á yfirráðasvæði Íslands, að því tilskildu að ekki sé gert ráð fyrir að starfstímabilið á bandarísku yfirráðasvæði sé  lengra en fimm (5) ár.

    3. Ef einstaklingur heldur áfram að falla undir lög samningsríkis samkvæmt a- eða b-lið þessarar greinar á meðan hann er á yfirráðasvæði hins samningsríkisins, skal sá liður einnig gilda um aðstandendur einstaklingsins sem fylgja honum, nema þeir séu í starfi eða sjálfstætt starfandi á yfirráðasvæði síðarnefnda samningsríkisins.

  2. Ákvæði 2. mgr. þessarar greinar skal gilda þegar einstaklingur hefur verið sendur af vinnuveitanda sínum frá yfirráðasvæði samningsríkis til yfirráðasvæðis þriðja ríkis og fellur undir lög þess samningsríkis meðan hann er starfandi á yfirráðasvæði þriðja ríkisins, og er í framhaldi af því sendur af þeim vinnuveitanda frá yfirráðasvæði þriðja ríkisins til yfirráðasvæðis hins samningsríkisins.

  3. Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem hefur búsetu innan yfirráðasvæðis samningsríkis skal einungis falla undir lög þess ríkis.

  4. Þegar sama starfsemi telst sjálfstæð atvinnustarfsemi samkvæmt lögum annars samningsríkisins og starf samkvæmt lögum hins samningsríkisins, skal sú starfsemi einungis falla undir lög fyrra samningsríkisins ef einstaklingurinn hefur búsetu í því ríki, og einungis undir lög hins samningsríkisins í öllum öðrum tilvikum.
    1. Einstaklingur sem starfar sem yfirmaður eða áhafnarmeðlimur skips sem siglir undir fána annars samningsríkisins og myndi falla undir lög beggja samningsríkjanna skal eingöngu falla undir lög samningsríkisins sem er fánaríki. Með hliðsjón af næsta málslið hér að framan, er skip sem siglir undir bandarískum fána skilgreint sem bandarískt skip samkvæmt bandarískum lögum.

    2. Starfsmenn fyrirtækja sem annast flutninga í lofti og ferðast og starfa á yfirráðasvæði beggja samningsríkjanna og sem annars myndu falla undir lög beggja samningsríkjanna skulu, að því er varðar það starf, einungis falla undir lög samningsríkisins á yfirráðasvæðinu þar sem fyrirtækið hefur höfuðstöðvar sínar. Ef hins vegar slíkir starfsmenn hafa búsetu á yfirráðasvæði hins samningsríkisins skulu þeir einungis falla undir lög þess samningsríkis.
    1. Samningur þessi skal ekki hafa áhrif á ákvæði Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961 eða Vínarsamningsins um ræðissamband frá 24. apríl 1963.

    2. Ríkisborgarar annars samningsríkisins sem starfa hjá stjórnvöldum þess samningsríkis á yfirráðasvæði hins samningsríkisins en eru ekki undanþegnir lögum hins samningsríkisins samkvæmt samningunum sem getið er í a-lið skulu einungis falla undir  lög fyrra samningsríkisins. Að því er varðar málsgrein þessa, felur starf  hjá bandaríska ríkinu í sér starf hjá stofnun ríkisins og starf hjá íslenska ríkinu felur í sér starf íslenskra, opinberra starfsmanna.
    1. Nema kveðið sé um annað í þessum hluta, skal einstaklingur sem hefur ekki búsetu á íslensku yfirráðasvæði ekki falla undir  íslensk lög.

    2. Þegar einstaklingur  fellur undir  bandarísk lög samkvæmt þessari grein, eru einstaklingurinn og vinnuveitandi hans eða hennar undanþegin greiðslu framlaga til almannatrygginga og framlaga í lífeyrissjóð samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

  5. Lögbærum stjórnvöldum samningsríkjanna er heimilt að koma sér saman um að veita undanþágu frá ákvæðum þessarar greinar að því er varðar tiltekna einstaklinga eða flokka einstaklinga, að því tilskildu að allir einstaklingar sem málið snertir skuli falla undir lög annars samningsríkjanna.

III. HLUTI
Ákvæði um bætur

7. gr.
Bætur samkvæmt bandarískum lögum

Eftirfarandi ákvæði skulu gilda um Bandaríkin:

  1. Þegar einstaklingur hefur lokið minnst sex (6) fjórðungum tímabils samkvæmt bandarískum lögum, en hefur ekki lokið nægilega löngu tryggingartímabili til að uppfylla skilyrði um rétt á bótum samkvæmt bandarískum lögum, skal bandaríska stofnunin, í því skyni ákvarða bótarétt samkvæmt þessari grein, taka tillit til tryggingartímabila sem tekið er tillit til samkvæmt íslenskum lögum og falla ekki saman við tryggingartímabil sem eru þegar færð til tekna samkvæmt bandarískum lögum.

  2. Við ákvörðun á rétti til bóta samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar, skal bandaríska stofnunin færa til tekna einn (1) fjórðung af tryggingartímabili fyrir hvert þriggja (3) mánaða tryggingartímabil sem staðfest er af íslensku stofnuninni, þó skal enginn fjórðungur af tryggingartímabilinu færður til tekna fyrir nokkurn almanaksfjórðung sem þegar hefur verið færður til tekna sem fjórðungur úr tryggingartímabili samkvæmt bandarískum lögum. Heildarfjöldi fjórðunga úr tryggingartímabili sem færður er til tekna fyrir eitt (1) ár skal ekki vera fleiri en fjórir (4). Bandaríska stofnunin skal hvorki taka tillit til tryggingartímabila sem liðu fyrir þann dag sem fyrst má færa til tekna tryggingabil samkvæmt þeim lögum sem hún starfar eftir, né mun bandaríska stofnunin taka tillit til nokkurra tryggingartímabila sem ekki grundvallast á launum eða tekjum af sjálfstæðri atvinnustarfsemi.

  3. Þar sem réttur á bótum samkvæmt bandarískum lögum er kominn á samkvæmt ákvæðum 1. mgr. þessarar greinar, skal bandaríska stofnunin reikna út hlutfallslega grunntryggingarfjárhæð í samræmi við bandarísk lög og grundvallast á a) meðaltekjum einstaklingsins sem færast til tekna eingöngu samkvæmt bandarískum lögum og b) hlutfalli lengdar tryggingartímabils einstaklingsins sem lokið er samkvæmt bandarískum lögum og lengd tryggingartímabils í samræmi við bandarísk lög. Bætur sem greiðast samkvæmt bandarískum lögum skulu byggjast á hlutfallslegri grunntryggingarfjárhæð.

  4. Réttur á bótum frá Bandaríkjunum sem leiðir af 1. mgr. þessarar greinar fellur úr gildi við öflun á fullnægjandi tryggingartímabilum samkvæmt bandarískum lögum til að stofna rétt á jafnháum eða hærri bótum án þess að þurfa að beita ákvæðis 1. mgr. þessarar greinar.

8. gr.
Bætur samkvæmt íslenskum lögum

Eftirfarandi ákvæði skulu gilda um Ísland:

Að því er varðar lög um elli- og örorkulífeyristryggingakerfi almannatrygginga:
  1. Þegar einstaklingur sem fellur undir samning þennan og sem fellur eða hefur fallið undir bandarísk lög og hefur lagt að baki heildarstarfstímabil samkvæmt íslenskum lögum sem nemur að minnsta kosti  tólf (12) mánuðum en er ekki með nægilega langt tryggingartímabil til að fullnægja kröfum til þess að eiga rétt á bótum samkvæmt íslenskum lögum um almannatryggingar, skal íslenska stofnunin taka tillit til  tryggingartímabila sem meðreiknuð eru samkvæmt bandarískum lögum og falla ekki saman við tryggingartímabil sem þegar er tekið tillit til samkvæmt íslenskum lögum til þess að réttur til bóta stofnist samkvæmt þessari grein.

  2. Þegar skilyrði 1. mgr. þessarar greinar er fullnægt, skal einstaklingur sem fellur undir samning þennan eiga rétt á íslenskum lífeyri almannatrygginga að uppfylltum öðrum skilyrðum samkvæmt  íslenskum lögum um almannatryggingar.

  3. Hafi skilyrðið um starfstímabil samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar ekki verið uppfyllt, skal einstaklingur sem fellur undir samning þennan eiga rétt á íslenskum lífeyri almannatrygginga ef einstaklingurinn hefur haft búsetu á Ísland eigi skemur en þrjú (3) ár á því tímabili sem mælt er fyrir um í íslenskum lögum um almannatryggingar.

  4. Ellilífeyrir og örorkulífeyrir almannatrygginga skulu greiddir einstaklingum sem falla undir samning þennan og búa á bandarísku yfirráðasvæði ef viðkomandi einstaklingur fullnægir skilyrði 1. mgr. þessarar greinar.

  5. Að því er varðar skilyrðið um tólf (12) mánaða starfstímabil sem krafist er í 1. mgr. þessarar greinar, skulu tryggingartímabilin í liðum i–iii í e-lið 1. mgr. 1. gr. viðurkennd.

  6. Tímabilin sem tilgreind eru í liðum i–iii í e-lið 1. mgr. 1. gr. má leggja saman til að fullnægja skilyrðum um tólf (12) mánaða starfstímabil sem krafist er í 1. mgr. þessarar greinar.

    Að því er varðar skyldubundna lífeyristryggingakerfið (lífeyrissjóði):

  7. Ákvæði 4. mgr. 19. gr. laganna um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða skal ekki gilda um framlög greidd í lífeyrissjóð sem starfar samkvæmt lögunum af einstaklingi, sem fellur undir samning þennan, við endurkomu eða búferlaflutninga þess einstaklings til Bandaríkja Norður-Ameríku.

  8. Einstaklingur sem fellur undir samning þennan skal eiga rétt á lífeyri í samræmi við lögin um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og samþykktir viðkomandi lífeyrissjóðs á grundvelli framlaga í lífeyrissjóð sem starfar samkvæmt þeim lögum.

IV. HLUTI
Ýmis ákvæði

9. gr.
Ráðstafanir stjórnvalda

Lögbær stjórnvöld samningsríkjanna tveggja skulu

  1. gera allar nauðsynlegar ráðstafanir innan stjórnsýslunnar sem varða framkvæmd samnings þessa og tilnefna samskiptastofnanir.

  2. miðla upplýsingum til hvors annars varðandi ráðstafanir sem gerðar eru vegna beitingar samnings þessa, og

  3. miðla til hvors annars sem fyrst upplýsingum varðandi allar breytingar á viðeigandi lögum sem kunna að hafa áhrif á beitingu samnings þessa.

10. gr.
Gagnkvæm aðstoð

Lögbær stjórnvöld og stofnanir samningsríkjanna, á sviði viðkomandi yfirvalda þeirra, skulu aðstoða hvort annað við framkvæmd samnings þessa. Aðstoð þessi skal vera endurgjaldslaus, með fyrirvara um undantekningar sem samið verður um í stjórnsýslufyrirkomulagi.

11. gr.
Þagnarskylda vegna miðlunar persónuupplýsinga

  1. Leiði ekki annað af  landslögum samningsríkis, skulu persónuupplýsingar sem annað samningsríkið sendir hinu samningsríkinu í samræmi við samning þennan notaðar við framkvæmd samningsins og vegna beitingar laganna í 2. gr. hans. Landslög samningsríkisins sem veitir þeim viðtöku sem gilda um friðhelgi einkalífs og vernd  persónuupplýsinga og ákvæði samnings þessa skulu gilda um slíka notkun.

  2. Lögbær stjórnvöld samningsríkjanna skulu upplýsa hvort annað um allar breytingar á landslögum þeirra varðandi friðhelgi einkalífs og vernd persónuupplýsinga sem hafa áhrif á sendingu persónuupplýsinga.

  3. Einstaklingi er heimilt að krefjast þess að fá upplýsingar um innihald, viðtökustofnun og hversu lengi persónuupplýsingar hans hafa verið notaðar, sem og tilgang og lagagrundvöll notkunarinnar og hvers vegna upplýsinganna var óskað og er lögbæru stjórnvaldi eða stofnun sem fer fram á persónuupplýsingarnar eða sendir þær skylt að veita einstaklingnum þær upplýsingar.

  4. Stofnanirnar skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að persónuupplýsingar sem sendar eru séu nákvæmar og takmarkist við þau gögn sem  krafist er til að uppfylla beiðni viðtökustofnunar. Stofnanirnar skulu, í samræmi við landslög sín, leiðrétta eða eyða öllum ónákvæmum persónuupplýsingum sem sendar eru og öllum gögnum sem ekki er þörf á til að uppfylla beiðni viðtökustofnunarinnar og tilkynna stofnun hins samningsríkisins þegar í stað um slíka leiðréttingu. Þetta skal ekki takmarka rétt einstaklings til að krefjast slíkrar leiðréttingar á persónuupplýsingum sínum beint frá stofnununum.

  5. Bæði stofnanirnar sem senda persónuupplýsingarnar og viðtökustofnanirnar skulu vernda persónuupplýsingarnar nægilega gegn óleyfilegum eða ólöglegum aðgangi, breytingu eða birtingu.

12. gr.
Þagnarskylda vegna miðlunar upplýsinga vinnuveitenda

Leiði ekki annað af landslögum samningsríkis, skulu upplýsingar vinnuveitanda sem sendar eru milli samningsríkjanna í samræmi við samning þennan vera notaðar við framkvæmd samningsins og vegna beitingar laganna í 2. gr. hans. Landslög ríkisins sem veitir upplýsingunum viðtöku og sem gilda um vernd og þagnarskyldu vegna upplýsinga vinnuveitanda  og ákvæði samnings þessa skulu gilda um slíka notkun.

13. gr.
Skjöl

  1. Þegar lög samningsríkis kveða á um að öll skjöl sem lögð eru fram hjá lögbæru stjórnvaldi eða stofnun þess samningsríkis skuli vera undanþegin, að öllu leyti eða að hluta til, þóknunum og gjöldum, þ.m.t. gjöld fyrir ræðismannsstörf og umsýslugjöld, skal undanþágan einnig gilda um samsvarandi skjöl sem lögð eru fram hjá lögbæra stjórnvaldinu eða stofnun hins samningsríkisins við beitingu samnings þessa.

  2. Afrit skjala sem stofnun annars samningsríkisins viðurkennir sem rétt og nákvæm afrit skulu samþykkt sem rétt og nákvæm afrit hjá stofnun hins samningsríkisins án frekari vottunar. Stofnun hvors samningsríkis um sig skal meta endanlega sönnunargildi þeirra gagna sem lögð eru fram fyrir hana, hvaðan sem þau eru upprunnin.

14. gr.
Bréfaskipti og tungumál

  1. Lögbær stjórnvöld og stofnanir samningsríkjanna mega hafa bein samskipti hver við aðra og við hvaða einstakling sem er, hvar sem einstaklingurinn kann að búa, hvenær sem það reynist nauðsynlegt vegna framkvæmdar samnings þessa.

  2. Lögbært stjórnvald eða stofnun samningsríkis má ekki hafna umsókn eða skjali eingöngu af því það er á tungumáli hins samningsríkisins.

15. gr.
Umsóknir

  1. Skrifleg umsókn um bætur sem er lögð fram hjá stofnun annars samningsríkis skal vernda réttindi umsækjendanna samkvæmt lögum hins samningsríkisins ef umsækjandinn fer fram á að hún teljist umsókn samkvæmt lögum hins samningsríkisins.

  2. Hafi umsækjandi  lagt fram skriflega umsókn um bætur hjá stofnun annars samningsríkis og hefur ekki óskað sérstaklega eftir því að umsóknin verði takmörkuð við bætur samkvæmt lögum þess samningsríkis, skal umsóknin einnig vernda réttindi umsækjendanna samkvæmt lögum hins samningsríkisins láti umsækjandinn á sama tíma í té upplýsingar sem gefa til kynna að einstaklingurinn sem bótakrafan tengist hafi lokið tryggingartímabilum samkvæmt lögum hins samningsríkisins.

  3. Ákvæði III. hluta þessa samnings skulu aðeins eiga við bætur sem sótt er um frá og með þeim degi er samningur þessi öðlast gildi.

16. gr.
Áfrýjanir og tímamörk

  1. Skriflega áfrýjun stofnunar annars samningsríkisins má réttilega leggja fyrir stofnun hjá öðru hvoru samningsríkinu. Um áfrýjunina fer samkvæmt málsmeðferð og lögum þess samningsríkis sem tók þá ákvörðun sem áfrýjað var.

  2. Allar kröfur, tilkynningar eða skrifleg áfrýjun sem, samkvæmt lögum annars samningsríkisins, verður að leggja fram innan tiltekins tímabils hjá stofnun þess samningsríkis, en sem eru þess í stað lagðar fram innan sama tímabils hjá stofnun hins samningsríkisins, skulu teljast hafa verið lagðar fram í tæka tíð.

17. gr.
Sending krafna, tilkynninga og áfrýjana

Í öllum tilvikum þar sem ákvæði 15. og 16. gr. samnings þessa gilda, skal stofnunin, þar sem krafa, tilkynning eða skrifleg áfrýjun hefur verið lögð fram, tilgreina móttökudagsetningu á skjalinu og senda það án tafar til samskiptastofnunar hins samningsríkisins.

18. gr.
Gjaldmiðill

  1. Greiðslur samkvæmt samningi þessum má inna af hendi í gjaldmiðli samningsríkisins sem innir greiðsluna af hendi.

  2. Ef annað hvort samningsríkið setur ákvæði sem eiga að takmarka gjaldeyrisskipti eða flutning gjaldeyris úr landi, skulu opinber stjórnvöld beggja samningsríkjanna þegar í stað grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja millifærslu á fjárhæðum sem annað hvort samningsríkið skuldar samkvæmt samningi þessum.

19. gr.
Lausn ágreinings

Allur ágreiningur um túlkun eða framkvæmd samnings þessa skal leystur með samráði milli lögbærra stjórnvalda.

20. gr.
Viðbótarsamningar

Samningi þessum má breyta síðar með viðbótarsamningum sem litið skal á sem óaðskiljanlegan hluta af samningi þessum frá gildistöku þeirra. Slíkir samningar mega hafa afturvirk áhrif sé kveðið á um það.

21. gr.
Bráðabirgðaákvæði

  1. Samningur þessi veitir ekki rétt til kröfu um bótagreiðslu vegna  tímabils fyrir gildistökudag samnings þessa, eða eingreiðslu  dánarbóta hafi einstaklingurinn andast fyrir gildistöku samnings þessa.

  2. Við ákvörðun á rétti til bóta samkvæmt samningi þessum, skal tekið tillit til tryggingartímabila samkvæmt lögum beggja samningsríkja og annarra atburða sem áttu sér stað fyrir gildistöku samnings þessa.

  3. Við beitingu 2. og/eða 3. mgr. 6. gr. þessa samnings þegar um er að ræða einstaklinga sem voru sendir til starfa á yfirráðasvæði samningsríkis fyrir þann dag er samningur þessi öðlaðist gildi, skal starfstímabilið sem vísað er til í þeim málsgreinum teljast byrja á þeim degi.

  4. Ákvarðanir varðandi rétt til bóta sem teknar voru fyrir gildistöku samnings þessa skulu ekki hafa áhrif á réttindi sem stofnast samkvæmt honum.

  5. Beiting á þessum samningi skal ekki leiða til lækkunar á fjárhæð bóta sem réttur hafði stofnast  til fyrir gildistökuna.

  6. Ekkert í samningi þessum hafa áhrif á orðsendingar varðandi greiðslu almannatryggingabóta sem stjórnvöld Bandaríkja Norður-Ameríku og Íslands skiptust á 1. desember 1980 og 16. apríl 1981.

22. gr.
Gildistími og uppsögn

  1. Samningur þessi gildir áfram til loka næsta almanaksárs eftir það ár er annað samningsríkið tilkynnir hinu samningsríkinu skriflega um uppsögn samningsins.

  2. Sé samningi þessum sagt upp, skal réttur til eða greiðsla bóta sem áunnist hefur samkvæmt honum haldast. Samningsríkin skulu gera ráðstafanir varðandi meðhöndlun  réttinda sem verið er að afla.

23. gr.
Gildistaka

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

GJÖRT í                                               hinn                                                   2016  í tvíriti á ensku og íslensku, og eru báðir textarnir jafngildir.

FYRIR HÖND BANDARÍKJA NORÐUR-AMERÍKU:

Robert Cushman Barber       

 

FYRIR HÖND ÍSLANDS:

Eygló Harðardóttir

 

 

STJÓRNSÝSLUFYRIRKOMULAG
MILLI LÖGBÆRRA STJÓRNVALDA BANDARÍKJA NORÐUR-
AMERÍKU OG ÍSLANDS
VEGNA FRAMKVÆMDAR Á SAMNINGNUM
UM ALMANNATRYGGINGAR
MILLI BANDARÍKJA NORÐUR-AMERÍKU
OG ÍSLANDS


Lögbær bandarísk stjórnvöld og

lögbær íslensk stjórnvöld

í samræmi við a-lið 9. gr. samningsins um almannatryggingar milli Bandaríkja Norður-Ameríku og Íslands þennan dag, hér á eftir nefndur „samningurinn“, hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

 

I. KAFLI
Almenn ákvæði

1. gr.

Hugtök sem koma fyrir í samningnum og eru notuð í stjórnsýslufyrirkomulagi þessu, skulu hafa sömu merkingu og þau hafa í samningnum.

2. gr.

  1. Samskiptastofnanirnar sem um getur í a-lið 9. gr. samningsins skulu vera:

    1. fyrir Bandaríkin, the Social Security Administration (Almannatryggingastofnunin) og

    2. fyrir Ísland, Tryggingastofnun ríkisins.

  2. Samskiptastofnanirnar sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar skulu ákveða sameiginlegar málsmeðferðarreglur og aðferðir sem nauðsynlegar eru vegna framkvæmdar á samningnum og stjórnsýslufyrirkomulagi þessu.

II. KAFLI
Ákvæði um gildissvið

3. gr.

  1. Þegar lögum annars samningsríkisins er beitt  í samræmi við eitthvert ákvæða 6. gr. samningsins, skal stofnun samningsríkis, að ósk vinnuveitandans eða hins sjálfstætt starfandi einstaklings, gefa út vottorð þar sem fram kemur að vinnuveitandinn eða hinn sjálfstætt starfandi einstaklingur falli undir þau lög og  og jafnframt gildistími vottorðsins. Vottorðið skal vera sönnun þess að starfsmaðurinn eða hinn sjálfstætt starfandi einstaklingur sé undanþeginn lögum um skyldubundnar tryggingar hins samningsríkisins.

  2. Vottorðið sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar skal gefið út:

    1. Í Bandaríkjunum, af the Social Security Administration (Almannatryggingastofnunin) og

    2. Á Íslandi, af Tryggingastofnun ríkisins.

  3. Stofnun samningsríkis sem gefur út vottorð sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar skal láta samskiptastofnun hins samningsríkisins í té afrit af vottorðinu eða umsamdar upplýsingar úr vottorðinu í samræmi við þarfir stofnunar hins samningsríkisins.

III. KAFLI
Ákvæði um bætur

4. gr.

  1. Umsóknir um bætur samkvæmt samningnum skulu lagðar fram á eyðublöðum sem samskiptastofnanir samningsríkjanna tveggja útbúa.

  2. Stofnun samningsríkisins, þar sem umsókn um bætur er fyrst lögð inn í samræmi við 15. gr. samningsins, skal láta samskiptastofnun hins samningsríkisins í té slík gögn og aðrar upplýsingar í fórum hennar eins og kann að vera óskað eftir til að ljúka vinnslu kröfunnar.

  3. Stofnun samningsríkis, sem tekur við umsókn um bætur sem var fyrst lögð fram hjá stofnun hins samningsríkisins, skal án tafar útvega samskiptastofnun hins samningsríkisins slík gögn og aðrar tiltækar upplýsingar sem hún hefur og sem  kann að vera óskað eftir svo að hún geti lokið vinnslu kröfunnar.

  4. Stofnun samningsríkisins þar sem umsókn um bætur hefur verið lögð inn skal staðfesta upplýsingarnar um umsækjandann og aðstandendur umsækjandans. Samskiptastofnanir beggja samningsríkja skulu ákveða þær tegundir upplýsinga sem á að staðfesta.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði

5. gr.

  1. Í samræmi við ráðstafanir sem aðilar ákveða samkvæmt 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslufyrirkomulags þessa, skal stofnun annars samningsríkisins, að ósk stofnunar hins samningsríkisins, veita tiltækar upplýsingar sem lúta að kröfu tilgreinds einstaklings að því er varðar framkvæmd samningsins.

  2. Í því skyni að auðvelda framkvæmd samningsins og stjórnsýslufyrirkomulags þessa, geta samskiptastofnanirnar komið sér saman um ráðstafanir varðandi öflun og afhendingu vegna rafrænna gagnaskipta.

6. gr.

Samskiptastofnanir samningsríkjanna tveggja skulu skiptast á tölfræðilegum upplýsingum um fjölda vottorða sem gefin eru út samkvæmt 3. gr. stjórnsýslufyrirkomulags þessa og um greiðslur til þeirra sem réttinda njóta samkvæmt samningnum. Þessar tölfræðilegu upplýsingar skulu veittar árlega með þeim hætti sem ákveðið verður.

7. gr.

  1. Þegar óskað er aðstoðar stjórnsýslunnar og hún veitt í samræmi við 10. gr. samningsins, skulu önnur útgjöld en fastur kostnaður vegna starfsmannahalds og rekstrar stofnunarinnar sem veitir aðstoðina endurgreidd, nema lögbær stjórnvöld eða samskiptastofnanir samningsríkjanna ákveði annað.

  2. Þegar þess er óskað skal samskiptastofnun annars samningsríkisins afhenda án endurgjalds samskiptastofnun hins samningsríkisins allar læknisfræðilegar upplýsingar og skjöl sem hún hefur og sem hafa þýðingu að því er varðar örorku umsækjandans eða bótaþegans.

  3. Þegar stofnun samningsríkis krefst þess að einstaklingur á yfirráðasvæði hins samningsríkisins sem þiggur eða sækir um bætur samkvæmt samningnum gangist undir læknisskoðun, skal samskiptastofnun hins samningsríkisins, fari stofnunin fram á það, annast skoðunina í samræmi við reglur stofnunarinnar sem gerir ráðstafanirnar og á kostnað stofnunarinnar sem fer fram á skoðunina.

  4. Samskiptastofnun annars samningsríkis skal endurgreiða fjárhæðir samkvæmt 1. eða 3. mgr. þessarar greinar þegar samskiptastofnun hins samningsríkisins leggur fram yfirlit yfir útgjöldin.

8. gr.

  1. Stjórnsýslufyrirkomulag þetta skal öðlast gildi sama dag og samningurinn öðlast gildi og gilda eins lengi og hann gildir.

  2. Lögbær stjórnvöld geta tilkynnt hvoru öðru skriflega um breytingar á heiti stofnananna án þess að breyta þurfi samningnum eða þessu stjórnsýslufyrirkomulagi.

GJÖRT í                                             hinn                                    2016  í tvíriti á ensku og íslensku og eru báðir textarnir jafngildir.

Fyrir hönd lögbærs stjórnvalds Bandaríkja Norður-Ameríku:

Robert Cushman Barber

Fyrir hönd lögbærs stjórnvalds Íslands:

Eygló Harðardóttir